Áfallaáætlun

Áfallaáætlun Hörðuvallaskóla

 

Áfallaráð

Skólastjóri, eða staðgengill hans ber ábyrgð á að kalla saman áfallaráð og stýra vinnu þess og skipulagi.

Í áfallaráði sitja skólastjóri, deildarstjórar, skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, sálfræðingur skólans og sá starfsmaður skólans sem næst stendur málinu. Einnig er hægt að kalla til sóknarprest sé þess þörf.

Í upphafi hvers skólaárs fundar áfallaráð og fer yfir starfsreglur. Ef slys eða áfall á sér stað í sumarleyfi eða öðru leyfi á skólaárinu er nauðsynlegt að kalla saman áfallaráð áður en nemendur og starfsfólk mæta aftur í skólann.

Ætíð skal gæta fyllsta trúnaðar gagnvart skjólstæðingum.

 

Áföll sem áætlunin nær til eru:

  • Minniháttar slys og vanlíðan, kynferðisleg misnotkun, alvarleg slys, alvarleg veikindi, langvinnir sjúkdómar og andlát nemanda.
  • Alvarleg slys, alvarleg veikindi, langvinnir sjúkdómar og andlát aðstandenda nemanda.
  • Alvarleg slys, alvarleg veikindi, langvinnir sjúkdómar og andlát starfsfólks.
  • Andlát maka eða barna starfsfólks.
  • Náttúruhamfarir.

 

Áföll tengd nemendum

  • Ef grunur vaknar um kynferðislega misnotkun ber ávallt að tilkynna það til barnaverndarnefndar.
  • Verði nemandi fyrir alvarlegu slysi á skólatíma skal sá starfsmaður sem næstur er kalla á hjálp og sinna nemandanum þar til sértæk aðstoð berst.
  • Hafa skal samband við forráðamenn nemandans og lögreglu sem allra fyrst.
  • Upplýsingar um áföll berist til skólastjóra eða staðgengils hans. Skólastjóri leitar staðfestingar hjá viðkomandi eða aðstandendum og ákveður næsta skref.
  • Aðilar úr áfallaráði ásamt umsjónarkennurum ræða við nemendur í þeim bekkjum sem tengjast málinu.
  • Öllu starfsfólki og nemendum er greint frá slysinu og þess gætt að enginn fari heim með rangar eða misvísandi upplýsingar
  • Umsjónarkennarar hringja heim í forráðamenn annarra nemenda ef þurfa þykir.
  • Sé slysið mjög alvarlegt er haldinn fundur í lok dags með öllu starfsfólki skólans þar sem farið er yfir atburðinn ásamt áfallaráði.
  • Viðbrögð vegna náttúruhamfara fara eftir eðli atburðanna.

 

Viðbrögð vegna andláts nemanda

  • Skólastjóri sér um að afla staðfestra upplýsinga um atburðinn og hefur samband við forráðamenn nemandans.
  • Skólastjóri kallar áfallaráð ásamt sóknarpresti saman. Áfallaráð ákveður fyrstu viðbrögð skólans í samráði við forráðamenn og skiptir með sér verkum.
  • Skólastjóri kallar starfsfólk skólans saman eins fljótt og hægt er og tilkynnir dauðsfallið.
  • Skólastjóri felur aðila úr áfallaráði að setja upp minningarborð inni í skólastofu nemandans. Nánar um minningarborð í viðauka.
  • Skólastjóri, sóknarprestur og/eða umsjónarkennari tilkynna andlátið í viðkomandi bekkjardeild. Hlúð er að nemendum í bekknum eins og hægt er með aðstoð hjúkrunarfræðings og sálfræðings.
  • Umsjónarkennarar tilkynna andlátið í öðrum bekkjardeildum, þannig að allir fái fregnina samtímis.
  • Umsjónarkennarar gæta þess að hafa samband við þá nemendur sem ekki eru í skólanum þennan dag.
  • Umsjónarkennarar senda bréf heim til foreldra þar sem greint er frá andlátinu og atburðum dagsins.
  • Umsjónarkennari sjái til þess að samúðarkveðja berist frá bekkjarfélögum.
  • Umsjónarkennari skipuleggi skrif á minningargrein.
  • Umsjónarkennari/sóknarprestur sjái til þess að nemendur fái að ræða um atburðinn og fái fræðslu um jarðarför.
  • Ef nemendur vilja vera viðstaddir jarðarför þarf að undirbúa það vandlega í samráði við aðstandendur.
  • Umsjónarkennari fjallar um málið í bekknum eftir þörfum.
  • Skólastjóri bjóði nemendum og foreldrum upp á samverustund í skólanum.

 

Viðbrögð vegna alvarlegra veikinda eða andláts aðstandenda nemanda

  • Skólastjóri eða umsjónarkennari fær staðfestingu á veikindum eða andláti hjá forráðamanni nemandans og lætur aðra vita sem málið varðar.
  • Skólastjóri kallar saman áfallaráð og það ákveður í samráði við forráðamenn hvernig unnið skuli að málinu.
  • Skólastjóri gætir þess að þeir starfsmenn sem ekki eru í skólanum þann dag fái fregnina.
  • Umsjónarkennari hringir heim í forráðamenn allra nemenda í bekknum og segir frá atburðinum.
  • Bekkurinn útbýr samúðarkveðju, ef um andlát er að ræða, sem skólinn sendir síðan til nemandans og fjölskyldu hans ásamt kveðju frá skólanum.
  • Ræða þarf í áfallaráði og í samráði við ættingja hvort fulltrúar skólans verði viðstaddir jarðaförina.
  • Umsjónarkennari undirbýr nemandann undir að koma aftur í skólann og styður hann vel fyrstu dagana.

 

Áföll tengd starfsfólki

  • Verði starfsmaður fyrir slysi eða veikist alvarlega, þarf skólastjóri að fá staðfestingu á slysinu eða veikindunum hjá starfsmanni eða aðstandanda hans og lætur aðra sem málið varðar vita.
  • Skólastjóri ákveður í samráði við áfallaráð og þann slasaða (eða aðstandanda hans) hvernig segja skuli nemendum og öðru starfsfólki frá slysinu eða veikindunum.

 

Viðbrögð vegna andláts starfsmanns

  • Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um andlátið.
  • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið og gætir þess að láta þá vita sem eru fjarverandi þann dag.
  • Gæta þarf þess að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám og störf við skólann, fái fregnina sérstaklega en ekki yfir hópinn.
  • Áfallaráð fundar um hvernig tilkynna eigi nemendum andlátið og hvernig upplýsingum skuli komið til forráðamanna nemenda.
  • Aðilar úr áfallaráði veita nemendum sem næstir stóðu starfsmanninum stuðning næstu daga.
  • Skólastjóri felur aðila úr áfallaráði að setja upp minningarborð við skrifstofu skólans eða þar sem á við. Nánar um minningarborð í viðauka.

 

Viðbrögð vegna alvarlegra veikinda eða andláts maka eða barna starfsfólks

  • Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um veikindi eða andlát.
  • Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um veikindin eða andlátið og gætir þess að láta þá vita sem eru fjarverandi þann dag.
  • Ef maki eða barn umsjónarkennara fellur frá, tilkynnir skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði, umsjónarbekk andlátið og kemur upplýsingum til forráðamanna nemenda.

 

Viðauki

Minningarborð

Á minningarborðinu er hvítur dúkur, mynd af hinum látna í ramma (mynd prentuð út úr Mentor eða öðru myndasvæði skólans), hvítt kerti, kertastjaki og sálmabók eða Biblía. Þegar líður að útfarardegi er sett upp minningarbók þar sem nemendur og starfsfólk geta ritað nafn sitt.

Minningarborð stendur uppi frá andlátsdegi og er tekið niður í samráði við áfallaráð eftir útför.

Kassi fyrir hluti sem tilheyra minningarborði er staðsettur hjá skólastjóra.