Hörðuvallaskóli er hverfisskóli fyrir Kórahverfið í Kópavogi og er einn af grunnskólum Kópavogs. Starfsemi skólans er í Baugakór 38, og í honum eru nemendur í 1.–7. bekk.
Hörðuvallaskóli hóf starfsemi haustið 2006 og er því að hefja sitt nítjánda starfsár. Skólinn hefur vaxið hratt frá stofnun en breytingar urðu á skólanum haustið 2023 þegar unglingadeild skólans, 8.-10. árgangar sem tilheyrðu áður skólanum, er nú sér grunnskóli sem heitir Kóraskóli. Nemendafjöldi í upphafi skólaárs eru um 530 nemendur skráðir í Hörðuvallaskóla.
Frístund fyrir nemendur í 1.–4. bekk er starfandi og þar eru alls 186 börn skráð. Opnunartíminn er frá kl. 13:00–16:30 fyrir alla árgangana. Frístund Hörðuvallaskóla ber nafnið Hörðuheimar. Starf Hörðuheima skiptist í tvennt, annars vegar starf 1.-2. bekkja sem er hefðbundið frístundarstarf sem byggist að mestu á frjálsum leik, og hins vegar starfið í 3.-4. bekk sem byggist upp á hugmyndum nemenda, nánar má lesa um starf frístundar í starfsáætlun Hörðuheima.
Skólinn starfar í Baugakór 38. Nemendur Kóraskóla sækja kennslu í valgreinum og list- og verkgreinum að mestu leyti til okkar í Baugakór. Nemendur í 2.-7. bekk sækja íþróttatíma í Kórinn og sund er kennt í Salalaug, Versölum og í sundlauginni í Boðaþingi. Nemendur 1. bekkjar sækja íþróttatíma í sal skólans í Baugakór.
Kennsla hefst kl. 8:15 hjá nemendum í 1.-4. bekk en kl. 8:30 fyrir nemendur í 5.–7. bekk. Skólinn opnar kl. 8:00 á morgnana.
Skrifstofa skólans í Baugakór er opin frá kl. 8:00–15:00 alla virka daga. Skólahúsnæðið er opið frá kl. 8:00 til kl. 16:00 dag hvern.
Þessi síða var uppfærð í október 2024