Kennarar í hverjum árgangi og sérgreinakennarar, skipuleggja skólastarfið í samræmi við skólanámskrá Hörðuvallaskóla og Aðalnámskrá grunnskóla.
Lögð er áhersla á að nemandinn sé á hverjum tíma vel upplýstur um þau námsmarkmið eða hæfni sem honum er ætlað að ná og hvaða tíma og bjargir hann hefur til þess. Því þarf nemandinn (og foreldrar/forsjáraðilar hans), að hafa aðgang að vel framsettum námsáætlunum þar sem markmiðum og leiðum er vel lýst. Námsáætlanir eru vistaðar í Mentor-kerfinu og eru þar aðgengilegar fyrir foreldra og nemendur. Foreldrar geta haft samband við viðkomandi kennara með tölvupósti og fengið námsáætlanir barna sinna sendar ef óskað er. Á miðstigi er einnig notað Google-skólaumhverfið til miðlunar námsefnis og verkefna, til verkefnaskila o.fl. Áhersla er á að kennsluaðferðir séu fjölbreyttar og miði að því að efla bæði sjálfstæði og samvinnuhæfni nemenda.
Til að hvetja til lestrar og auka lestrarfærni nemenda eru lestrarstundir hjá öllum árgöngum skólans, ætlast er til þess að allir nemendur lesi sér til gagns og ánægju á hverjum degi í skólanum í samræmi við lestrarstefnu skólans og tekin eru skimunarpróf skv. henni.
Skóladagur hefst kl 8:15 hjá 1.- 4. árgangi og kl 8:30 hjá 5.- 7. árgangi. Kennslu lýkur á mismunandi tíma eftir dögum og aldri nemenda en kennslulok eru á bilinu kl. 13:00-14:15. Á Mentor má sjá stundaskrá hvers bekkjar. Frístund er opin frá 13:00 eða á þeim tíma sem kennslu nemenda í 1.- 4. bekk lýkur.
Þessi síða var uppfærð í október 2024