Viðburðir

Hér á eftir er að finna yfirlit yfir helstu viðburði sem fram fara í skólanum á skólaárinu.

Baráttudagur gegn einelti er 8. nóvember

  • Fyrir þann dag vinna nemendur verkefni sem miða að fræðslu um einelti. Á baráttudegi gegn einelti hittast vinabekkir og vinna saman að verkefni sem undirbúið er af kennurum. Þessi dagur er samvinnudagur 7. bekkjar Hörðuvallaskóla og 9. bekkjar Kóraskóla sem eru vinabekkir til að hjálpa til við aðlögun í nýjan skóla. Vinabekkir hittast einnig á öðrum degi sem kennarar ákveða til að efla tengsl á milli nemenda og kennara.

Fullveldisdagurinn

  • Hefð er fyrir því í Hörðuvallaskóla að minnast fullveldisdagsins með dagskrá 1. desember. 1. og 3. árgangar eru með sýningu á sal fyrir foreldra og þeim í kjölfarið boðið í kennslustofur til að líta á verkefni sem unnin hafa verið.

Jólaball

  • Síðasta skóladag fyrir jól er jólaball. Nemendur í 6. bekk sýna helgileik, kór skólans syngur, nemendur úr Skólahljómsveit Kópavogs leika nokkur lög, óvæntur gestur lítur oftast við og gengið er í kringum jólatré.

Öskudagur

  • Öskudagur er óhefðbundinn dagur í Hörðuvallaskóla. Mæting í skólann er samt á hefðbundnum tíma. Mælst er til að allir mæti í furðufötum eða grímubúningi, bæði börn og fullorðnir. Dagskrá er á sal skólans, kötturinn sleginn úr tunnunni, ýmis afþreying og tilboð eru á svæðum víðsvegar um skólann og í lok skóladags er síðan diskótek í salnum. Skipulagðri dagskrá lýkur um kl. 12:00.

Vordagar

  • Þrír dagar að vori eru svokallaðir vordagar. Þetta eru skóladagar með óhefðbundinni dagskrá, þ.e. hefðbundin stundaskrá er lögð til hliðar. Skólahald hefst báða dagana kl. 8:30.
  • Fyrri tvo dagana eru Hörðuvallaleikar, sem eru íþróttaleikar, annars vegar fyrir yngsta stig og hins vegar fyrir miðstig og er hluti af því UNICEF hlaup.
  • Síðasta vordaginn ganga allir nemendur skólans ásamt starfsfólki upp í Guðmundarlund. Þar er farið í leiki, grillaðir hamborgarar, sunginn fjöldasöngur og loks gengið heim í skóla aftur. Skóladegi lýkur um kl. 12:00. Markmiðið er að allir í skólanum eigi saman ánægjulega samveru og njóti náttúrunnar í nágrenni skólans.

Annað

  • Leitast er við að brjóta upp hefðbundna kennslu þegar tilefni gefst til s.s. á degi íslenskrar tungu, degi stærðfræðinnar, degi íslenskrar náttúru og degi bókarinnar. Í flestum tilvikum er slíkt uppbrot inni í bekkjum undir stjórn umsjónarkennara.
  • Vettvangsferðir eru farnar í hverjum árgangi. Ýmist er farið í styttri eða lengri ferðir. Magnúsarlundur og Guðmundarlundur eru mikið nýttir í vettvangsferðir. Einnig er bókasafn Kópavogs mikið sótt ásamt ýmiskonar viðburðum sem eru í boði hverju sinni.
  • Á hverju ári fer 7. árgangur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði.

 Þessi síða var uppfærð í október 2024