Við í Hörðuvallaskóla erum með verkefni í gangi á miðstigi sem snýr að þéttri og góðri samvinnu heimilis og skóla og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að farsæld og velferð barnanna okkar. Verkefnið er þríþætt.
Fyrst er fræðsla frá Jóhanni Pétri Herbertssyni, fjölskyldufræðingi fyrir foreldra sem er 40 mínútna fyrirlestur um hvernig forsjáraðilar geta stuðlað betur að velferð barnanna. Hann talar um að setja mörk, veita börnum hæfilega ábyrgð á heimilinu og á eigin lífi og hversu mikilvæg samvera með fjölskyldunni sé. Hann talar einnig um mikilvægi samfélagsins í kringum börnin okkar og að við, sem samfélag, séum tilbúin til að hjálpast að við að hlúa að þeim. Þótt að einu barni líði vel þá þurfa aðrir forsjáraðilar og skólinn að vinna saman og grípa þá sem líður ekki vel.
Annað skref verkefnisins er að halda líðanfund (sem hér eftir heitir Tengslatorg) með forsjáraðilum í námshópum. Þá koma forsjáraðilar á fund þar sem þeir ræða, með leyfi barna sinna, um líðan og félagslega stöðu þeirra. Markmið fundanna er að skapa gott samfélag meðal forsjáraðila í árganginum, að þeir hittist og tengist hver öðrum til að geta hjálpast að við að hlúa vel að öllum og jafnvel grípa þá nemendur sem eru illa staddir félagslega. Fyllsta trúnaðar er gætt á fundinum.
Þriðja og síðasta skrefið er á ábyrgð foreldrafélagsins. Þá virkjar foreldrafélagið bekkjarfulltrúa til að halda fund með forsjáraðilum árgangsins til að útbúa farsældarsáttmála (áður foreldrasáttmáli). Forsjáraðilar koma sér saman um ákveðin gildi og reglur fyrir árganginn sem heild og hvernig þeir geta unnið saman að velferð og farsæld allra barna. Sem dæmi má nefna sameiginleg viðmið um að hefja notkun samfélagsmiðla ekki of snemma, samræma svefntíma, útivistartíma og að vera sammála um að koma vel fram við aðra.
Nú höfum við lokið við fyrstu tvö skrefin í verkefninu fyrir alla nemendur og forsjáraðila á miðstigi. Fundirnir voru mjög góðir og við hér í skólanum erum afar stolt af þeirri auðlind sem býr í foreldrahópnum. Ef forsjáraðilar og skólinn vinna saman þá náum við árangri í velferð og vellíðan barnanna okkar.
Baugakór 38, 203 Kópavogur Sími: 441-3600 |
Skrifstofa skólans er opin kl. 08:00-15:00 virka daga á starfstíma skólans. Starfsfólk og netföng |
Tilkynningar um veikindi / leyfisóskir vegna nemenda: 441-3600 / ritari.horduvallaskola@kopavogur.is