Í morgun komu fulltrúar TUFF-Íslands, Kópavogsbæjar og íþróttafélaganna HK og Gerplu og kynntu TUFF verkefnið fyrir nemendum Hörðuvallaskóla.
Verkefnið gengur út á að auka þátttöku allra barna á grunnskólaaldri í íþróttum og í boði eru æfingar frítt í 3 mánuði fyrir þá sem ekki eru að æfa neina íþrótt. Sérstaklega er litið til þess að tryggja að börn af erlendum uppruna sem nýflutt eru í samfélagið verði virkir þátttakendur. Í gegnum tómstundir og íþróttir er markvisst unnið að því að styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna og kenna viðurkennd gildi íslensks samfélags, grunnréttindi og skyldur.
Nemendur fengu með sér litla auglýsingu með upplýsingum um hvaða íþróttafélög taka þátt í verkefninu og best er að snúa sér til þeirra til að skrá sig.
Nánar um verkefnið:
TUFF í Kópavogi Kópavogsbær hefur í samstarfi við alþjóðlegu samtökin TUFF (The Unity of Faiths Foundation) ákveðið að taka þátt í þriggja mánaða átaksverkefni í Kópavogi. TUFF hefur skipulagt slík verkefni víðsvegar í London frá 2013, í samstarfi við breska innanríkisráðuneytið, á Indlandi og Ástralíu. TUFF Ísland framkvæmdi tilraunaverkefni í Breiðholti sem hófst í nóvember 2017 með góðum árangri og mun vinna með íþróttafélaginu KR á næstunni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari TUFF Ísland. Markmiðið með TUFF verkefninu er að auka þátttöku ungmenna á aldrinum 6–15 ára í íþrótta- og tómstundastarfi. Sérstaklega er litið til þess að tryggja að börn af erlendum uppruna sem nýflutt eru í samfélagið verði virkir þátttakendur. Í gegnum tómstundir og íþróttir er markvisst unnið að því að styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna og kenna viðurkennd gildi íslensks samfélags, grunnréttindi og skyldur. TUFF Kópavogur verður rekið á vegum Kópavogsbæjar með nánu samstarfi við alla lykilaðila í bæjarfélaginu svo sem íþróttafélög, tónlistarskóla, dansskóla, grunnskóla, frístundir, félagsmiðstöðvar og hverfisstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi. Verkefnahópur þessara aðila, leiddur af fulltrúum Kópavogsbæjar, hittist reglulega og stýrir framgangi verkefnisins. Verkefnið er opið öllum nemendum á grunnskólaaldri til þátttöku. Átaksverkefnið mun leggja áherslu á að tengja alla framangreinda aðila með það fyrir augum að íþróttir og tómstundir verði hluti af þverfaglegri samþættingu úrræða fyrir börn og ungmenni. Verkefnið mun samræmast og styðja við annað starf sem þegar er í Kópavogi. Eftirfarandi aðilar hafa lýst sig reiðubúna að styðja við verkefnið eftir því sem kostur gefst: KSÍ, ÍSÍ, breska sendiráðið og ríkislögreglustjóri. Dr Shamender Talwar, fulltrúi TUFF veitir verkefninu ráðgjöf í 8 vikur og leiðbeinir þjálfurum, kennurum og þátttakendum. Hann mun svo fylgja verkefninu eftir og heimsækja 2-3 sinnum á næstu 2 mánuðum þar á eftir. Í lokin mun verkefnahópurinn skila samantekt um verkefnið til bæjarstjóra.
Baugakór 38, 203 Kópavogur Sími: 441-3600 |
Skrifstofa skólans er opin kl. 08:00-15:00 virka daga á starfstíma skólans. Starfsfólk og netföng |
Tilkynningar um veikindi / leyfisóskir vegna nemenda: 441-3600 / ritari.horduvallaskola@kopavogur.is