Skólamót HSÍ

Í vikunni fór fram riðlakeppni á Skólamóti HSÍ í handbolta á höfuðborgarsvæðinu. Mótið er ætlað nemendum í 5. og 6. bekk en rúmlega 1000 keppendur mættu til keppni í Víkinni og Safamýri. Óhætt er að segja að nemendur Hörðuvallaskóla hafi sett svip sinn á mótið. Enginn skóli skráði jafn mörg lið til þátttöku en alls tóku 19 lið þátt frá okkur í þetta skiptið.
 
Nemendur voru skólanum til sóma innan sem utan vallar og stóðu sig virkilega vel. Foreldrar tóku einnig virkan þátt með því að skutla nemendum frá skólanum á leikstað og til baka aftur. Margir nemendur voru að taka þátt í sínu fyrsta handboltamóti en aðrir eru reyndari á þessi sviði. Öll sýndu liðin flotta takta og fór svo að lokum að sex lið frá skólanum tryggðu sér þátttöku á úrslitadegi sem haldinn verður síðar.